COVID-19

Breytingar á dreifingu Distica vegna COVID-19

 

Garðabær 3. apríl 2020

Kæri viðskiptavinur.

Við hjá Distica virkjuðum viðbragðsáætlun okkar vegna COVID-19 þann 9. mars sl. Þessa áætlun höfum við uppfært reglulega og upplýst Lyfjastofnun um breytingar sem á henni verða.

Sú áætlun hefur fyrst og fremst miðað að því að tryggja aðfangakeðjuna frá framleiðanda til viðskiptavina. Þar höfum við lagt áherslu á að hefta smitleiðir kórónuveirunnar og tryggja eftir megni að sem fæstir starfsmenn þurfi að fara í sóttkví komi upp smit á vinnustaðnum. Það er gert með því að fylgja í einu og öllu leiðbeiningum og fyrirmælum sem koma frá yfirvöldum, þ.e. landlækni, sóttvarnalækni og Lyfjastofnun.

Til viðbótar fyrirmælum yfirvalda gripum við strax til þess ráðs að skipta starfsfólki vöruhúsanna í hópa og tryggðum sem minnst samskipti þessara hópa, bæði innan deilda og í kaffi- og matartímum. Starfsmenn annarra deilda eiga þess kost að vinna hluta sinna starfa í fjarvinnslu og virkjuðum við það úrræði strax. En, eins og gefur að skilja, þá eiga starfsmenn vöruhúsanna ekki kost á því úrræði.

Hingað til hefur sem betur fer enginn starfsmaður fyrirtækisins smitast. Við verðum hinsvegar að halda áfram með fyrirbyggjandi aðgerðir og vera viðbúin ef smit kemur upp.

Þess vegna munum við nú stíga næsta skref í okkar viðbragðsáætlun. Það skref tökum við til þess að vernda enn frekar starfsemi vöruhúsanna og starfsmenn þeirra, til þess að geta haldið úti dreifingu til viðskiptavina þó til smits kæmi. Við munum því taka upp vaktaskipulag í þeim tilgangi að einungis hluti starfsmanna verði á vinnustaðnum á hverjum tíma. Með þessari aðgerð er verið að lágmarka líkur á neikvæðum áhrifum á starfsemi vöruhúsanna ef smit kemur upp. Þetta hefur hinsvegar í för með sér að starfsemin mun ganga hægar fyrir sig.

Þessi hluti viðbragðsáætlunar mun fela í sér breytingu á daglegri dreifingu okkar til viðskiptavina. Breytingin felur í sér að öll apótek fá afhent þrisvar í viku, sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir og stærstu apótekin fá áfram afhent fimm sinnum í viku og aðrir viðskiptavinir fá afhent tvisvar í viku. Jafnframt getur þetta leitt til þess að afhendingar verði á öðrum tímum en verið hefur. Við munum senda út tölvupóst til hvers og eins viðskiptavinar með upplýsingum um í hvaða hóp hann fellur, hvenær pantanir þurfa að berast fyrir hvern afhendingardag og hvenær verður afgreitt.

Þessi breyting mun taka gildi þriðjudaginn 14. apríl nk.

Við biðjum ykkur um að sýna þessari aðgerð skilning og leggjum áherslu á að hún er virkjuð til að tryggja eftir megni áframhaldandi reglulega dreifingu.

F.h. Distica hf. Gylfi Rútsson Framkvæmdastjóri